ÁRAMÓTAKVEÐJA OG TILYNNING

Elsku viðskiptavinir. Ég tók mína síðustu myndatöku í stúdíóinu mínu á Furuvöllum á Þorláksmessu - og skellti endanlega í lás og skilaði húsnæðinu þann 28.desember síðastliðinn.

Alveg síðan ég man eftir mér hefur myndavélin verið algerlega samgróin mér, frá því ég var lítill polli að taka myndir í jólaboðum hjá fjölskyldunni þartil að ég fór í ljósmyndanám til Ástralíu og gerði þetta að aðalstarfi.

Það er þetta með gullúrið. Einusinni lærði maður t.d. að verða bókari, fékk vinnu á bókhaldsskrifstofu - og fékk svo gullúr þegar maður fór á eftirlaun. En blessunarlega er það ekki svoleiðis lengur. Korter í covid lét ég gamlan draum rætast og fór í húsasmíðanám á Sauðárkróki. Hugmyndin var að geta gert eitthvað sjálfur í gömlu húsunum sem við fjölskyldan höfum keypt í gegnum tíðina.

En svo kom covid - engin brúðkaup, engar fermingar, engar árshátíðir - engar myndatökur. Mér bauðst vinna við smíðar í gegnum þetta skrýtna tímabil í lífi Íslendinga - og komst að því að þetta á bara nokkuð vel við mig og góð tilfinning að vita að það sé hægt að skipta um starfsvettvang.

Starf ljósmyndara er lífstíll einsog vinur minn Þórhallur Jónsson (í Pedromyndum, sem lokaði nú um áramótin) orðaði svo vel. Til að geta lifað af sem ljósmyndari í eins litlum bæ og Akureyri þarftu að taka myndir á nánast öllum tímum sólarhringsins. Fermingar eru myndaðar eftir vinnu og skóla - og brúðkaup og árshátíðir um helgar. Vinna þegar aðrir eru í fríi. Og þennan lífstíl algerlega dýrkaði ég framan af. En nú er ég orðinn tveggja barna faðir með yndislegu konunni minni henni Heiðu - og fatta loksins hversu þessi vinna hentar illa fyrir fjölskyldufólk og hversu mikinn tíma frá fjölskyldunni hún var að taka. Því hef ég ákveðið að kveðja ljósmyndun sem aðalstarf í bili, að minnsta kosti meðan strákarnir okkar eru svona ungir.

Það er búið að vera algerlega stórkostlegt að fá að taka þátt í því að skrásetja minngarnar fyrir ykkur öll - og fá að hitta og mynda fólk úr öllum þjóðfélagshópum í gegnum þessa frábæru vinnu - en nú er kominn tími til að eiga meiri tíma fyrir fjölskylduna og skapa og skrásetja mínar eigin minningar. Ég vill þakka öllum sem höfðu trú mér mér og mættu í myndatöku þegar ég var að byrja og blautur á bakvið eyrun - og öllum sem komu í myndatöku eftir það.

Ég mun áfram taka einhver verkefni að mér en mun reyna að halda því í einhverju lágmarki - og fyrir þá örfáu sem eiga gjafabréf eða pantaða myndatöku hjá mér - við leysum það með skemmtilegri útimyndatöku ☺️

Myndin sem fylgir er mynd sem ég setti inn í byrjun covid - en hún markar ákveðið upphaf af þessari vegferð minni og er táknræn á ákveðinn hátt.

Takk fyrir mig - þið gerðuð síðustu 14 ár algerlega geggjuð ☺️❤️